Kleifar

Tjaldsvæði/Camping

Færslur: 2012 Júní

23.06.2012 18:08

Gönguleiðir

Brúnirnar ofan við Mörk og Geirland

Hvar á að byrja og enda: Á Kleifum, (vegur 203)
Hvað er þetta löng leið? Um 10 km
Gangan? Gengið eftir heiðunum á grónu landi, engir stígar.
Hafa þarf í huga: Gætið ykkar vel á þverhníptum brúnunum. Vaða þarf
vatnslitla á. Alls ekki vera með lausa hunda.
Leggið bílnum við íþróttavöllinn á Kleifum og gangið síðan inn eftir veginum þar til komið er að hliði og vegi á vinstri hönd. Farið þar inn (munið að loka hliðinu), gegnum fjárréttina og upp Merkurklif. Orðið klif kemur víða fyrir á Síðunni og merkir þá undantekningarlítið stað þar sem hægt er að komast upp á heiðarnar en móbergsbrúnin er brött og víðast ókleif. Farið til hægri þegar upp er komið og gangið með brúnunum í norður.
Á Kleifum var þingstaður til forna og hét hreppurinn Kleifahreppur.Talið er að menn hafi verið dæmdir til dauða á þingunum og styður þá kenningu að tveir steinar kallast
Gálgasteinar. Líklegt er að planki hafi verið lagður á milli steinanna tveggja til að búa til hengingarstað.
Strákalækur fellur í fossi fram af brúninni og verða oft kostulegar ísmyndanir á vetrum þegar vatnið úr fossinum fýkur og frýs á berginu.
Kleifahreppi var skipt í Kirkjubæjarhrepp og Hörgslandshrepp 1892 og var þingstaður Kirkjubæjarhrepps um tíma í Ytri-Dalbæ í Landbroti. Eftir aldamótin 1900 reisti stúkan Aldamót hús á Kleifum. Stúkan var stofnuð að frumkvæði sýslumannsins á Klaustri og prestsins á Prestbakka. Stúkan varð fljótt fjölmenn og lyftistöng margs konar menningar. Hafði stofnun stúkunnur mikil áhrif og sást varla vín á manni í marga áratugi. Var stúkuhúsið notað til samkomuhalds á vegum stúkunnar og þangað færðust fljótlega aðrir fundir og þinghald. Síðast var þingað á Kleifum 1916. Stúkuhúsið var þá rifið og timbrið notað til skólabyggingar á Klaustri
Yngri kynslóð Íslendinga þekkir Kleifar sennilega helst af því að þar var haldin mikil tónlistarhátíð sumarið 1995 sem kallaðist UXI. Hljómsveitarpallurinn var á íþróttavellinum og bergmálaði tónlistin í klettunum. Vípraði sveitin af taktföstum bassa alla helgina því spilað var nótt og dag. Gestir gistu í tjöldum við svæðið og varð þetta hin æðislegasta útihátíð með öllu sem tilheyrir og tæpast var neinn stúkubragur á því fólki sem þar dansaði.
Bæirnir Mörk og Geirland eru fyrir neðan brúnina. Það verður hver að velja sér leið hér því enginn er stígurinn. Sumir vilja horfa mikið fram af brúnunum en aðrir kjósa frekar að fara ofar í landið og sjá inn á heiðarnar. Rústir sauðahúsa eru rétt áður en komið er að hrikalegum hömrunum fyrir innan Geirland þar sem fossinn fellur fram af í Árgili. Vaða þarf yfir Merkurá sem alla jafna er vatnslítil. Varist að vera nærri brúninni þegar vaðið er yfir því klappirnar eru hálar. Niðri í dalnum eru leifar af rafstöð sem Sigfús Vigfússon á Geirlandi reisti en hann var einn þeirra Skaftfellinga sem smíðaði og setti upp rafstöðvar.
Gangið áfram meðfram brúninni eftir að komið er yfir Merkurá en takið síðan stefnuna beint inn á heiðina því það á að fara niður með rafmagnslínunni sem sjá
má í fjarska. Það verður hver að finna smalann í sjálfum sér og finna bestu leiðina yfir mýrar og holt. Ef það er blautt getur þurft að þræða holtin en annars eru mýrarnar færar.
Brátt blasa við bæirnir í Mörtungu þar sem Kaldbakur gnæfir yfir. Það sést líka mjög vel yfir jörðina Prestbakka þar sem blessaður Jón Steingrímsson bjó í Skaftáreldunum. Hér um heiðarnar hefur fólkið gengið sem kom frá bæjunum vestar á Síðunni að leita sér hjálpar og huggunar hjá séra Jóni.
Fylgið raflínunni niður á vegarslóða. Þegar komið er niður hlíðina tekur þessi þolinmóði skaftfellski drangur móti göngumönnum. Nú er gengið með hlíðinni og sjást þá fjárhús frá Geirlandi á svæði sem heitir Landnyrðingur.
Slóðinn liggur niður á eyrarnar og þaðan er leiðin greið að Kleifum aftur. Á leiðinni er gengið framhjá Mosum en þar var búið til 1961. Afkomendur ábúendanna hafa gert sér þar fallegan reit, ræktað skóg og haldið við gömlu bæjarhúsunum. Staki kletturinn fyrir ofan bæinn heitir Kylli.
Þjóðvegur eitt lá með Síðunni og yfir Geirlandsá og sést enn brúarstæðið og vegurinn. Árið 1972 var vegurinn færður þangað sem hann er nú, beint yfir Stjórnarsand. Það er greiðfærari leið og styttri en óneitanlega var sjónarsviptir að því að keyra ekki lengur með Síðunni.
Næst er að ganga veginn að Kleifum þar sem gangan byrjaði.
Texti: LM

Gengið inn í dalinn hjá Geirlandi og Mörk

Hvar á að byrja og enda: Hjá heyrúllunum milli Geirlands og Merkur
Hvað er þetta löng leið? Um 3 km (fram og til baka)
Gangan: Gengið eftir slóða á jafnsléttu, létt ganga, urð inni í dalnum
Bílastæði: Leggið bílnum á stæðið hjá heyrúllunum
Þessi leið kemur mjög á óvart. Innst í krikanum er fallegur foss og tilkomumikið stuðlaberg. Algjört ævintýri fyrir ljósmyndara, jarðfræðinga og áhugafólk um heimarafstöðvar. Gangan hefst á því að fara þarf yfir Rásina. Það er hægt að keyra yfir hana, vaða eða hlaupa niður á brúna hjá Geirlandi. Farið síðan inn um hliðið sem er vinstra megin og fylgið slóðinni að næstu girðingu. Þar er rafmagn í efsta strengnum sem gerir það að verkum að taka þarf um gúmmíhöldu til að opna.
Á Geirlandi var fyrsta sveitaverslunin austan sands. Vigfús Jónsson sótti um borgaraleyfi (verslunarleyfi) 1895 og byrjaði að versla. Var verslunin starfrækt á Geirlandi til 1914. Sigfús, sonur Vigfúsar, smíðaði rafstöð og setti upp rétt hjá bænum 1926-7. Tuttugu árum seinna réðist Sigfús í miklar framkvæmdir og virkjaði Merkurána í Árgilinu. Sjást ýmis ummerki um þær framkvæmdir s.s. rafstöðvarhúsið, rörin og leifar af stíflunni. Efni í stífluna og rörin þurfti að bera upp urðina og hefur það verið mikil erfiðisvinna. Það hefur kostað mörg dagsverk að reisa þessa virkjun. Virkjunin framleiddi rafmagn fyrir Geirland, Mörk og Mosa. Þessi virkjun var í notkun til 1973 þegar ríkisrafmagnið kom í sveitina. Grjóthóllinn innarlega í dalnum heitir Bolasteinn.
Erla Ívarsdóttir og Gísli Kjartansson byrjuðu með ferðaþjónustu inni í íbúðarhúsinu sínu árið 1988. Sú ferðaþjónusta er nú orðin að 40 herbergja hóteli með öllu sem tilheyrir.
Gangið sömu leið til baka.
Texti: LM

Hæðargarðsleið í Landbroti

Hvar á að byrja og enda: Við Skaftárskála
Hvað er þetta löng leið? 8-9 km
Gangan? Gengið á jafnsléttu eftir mosa og vegslóða
Hafa þarf í huga: Það er auðvelt að villast í hólunum ef skyggni er slæmt og farið er út fyrir slóðann.
Gönguleiðin hefst við Skaftárskála. Gengið er yfir brúna á Skaftá. Fylgið leiðinni á kortinu. Þar sem kortið endar taka við stikur á gömlum vegslóða. Fyrst er gengið eftir vegslóðanum en síðan beygt til hægri (vestur) til að skoða merkta hóla (gerfigíga). Stikurnar leiða ykkur áfram í hálfhring þar til
komið er að Gluggaskeri. Þar á að ganga vegslóðann til baka.
Í Hæðargarðsvatni er nokkur silungsveiði sem áður fyrr var metin til hlunninda til jafns við arð af einni snemmbærri kú. Landslagið er sérkennilegt, útsýni til allra átta, stórfenglegt af hæstu hólunum, bæði til fjalla sem og yfir undirlendið. Landbrotshólar eru stærsta svæði sinnar tegundar á Íslandi (gerfigígaþyrping), frá því í kringum landnám ( 874- 930), en af sumum þó talið mun eldra, eða allt að 5000 ára. Hólarnir eru gjallhrúgur sem myndast hafa er hraunstraumur rann yfir votlendi. Í hólunum má sjá margskonar myndunarform. Sumir eru holir að innan, ýmist opnir eða nær alveg luktir. Hluti þessara hóla hefur verið nýttur af bændum í aldaraðir, sem skýli fyrir sauðfé, en með bættum húsakynnum fyrir búfénað var því með öllu hætt er líða tók á 20 öldina. Kindagötur og troðningar eru víðsvegar um hólana, enda leiðir til afréttar á fjöllum uppi, fyrir sauðfé bænda í Landbroti. Einnig eru þar fornar alfaraleiðir Landbrytlinga.
Um Landbrotshólana segir Sveinn Pálsson í Ferðabók sinni:
Ýmsir hinna holu hafa verið opnaðir af manna höndum og eru hafðir fyrir fjárborgir eða til annarra nota. Þeir hafa ýmis nöfn, og eru hinir ljótustu þeirra, sem enginn veit, hve stórir eru eða djúpir, nefndir Myrkvastofa og öðrum slíkum nöfnum. Einn þeirra heitir Sönghóll af því, að munkarnir frá Þykkvabæjarklaustri gáfu þar eins konar merki með lúðrum, þegar þeir komu að finna nunnurnar á Kirkjubæjarklaustri. Þetta merki heyrðist svo heim á klaustrið, og var þá svarað þar með því að hringja öllum klukkum staðarins. Meðan á gosinu stóð, rauk upp úr öllum þessum hólum, líkt og verið væri að gera þar til kola, enda þótt eldstöðvarnar væru langt burtu, og má af því marka meðal annars, hve jarðvegurinn er holur.
Hvernig litu hólarnir út á dögum Sveins, nokkrum árum eftir Skaftárelda? Sennilega hafa þeir verið dýpri en nú er, ógrónir og svartir á að líta. Þá var líka sandfok og uppblástur á þessu slóðum þar sem flest er gróið í dag. Viðhorf okkar til hólanna hafa breyst frá því Sveinn fór hér um, því flestum þykja þeir mjög fallegir í dag.
Sönghóll er fyrsti merkti hóllinn á vinstri hönd þegar gengið er af stað. Hjá Sönghól lá fyrr á tímum aðal þjóðleiðin um Landbrot. Er hólinn talinn draga nafn sitt af því þegar munkarnir á Þykkvabæjarklaustri fóru í heimsókn til nunnanna á Kirkjubæjarklaustri, sáu þeir þaðan fyrst heim til Klaustursins. Gengu þeir þá upp á hann og hófu söng mikinn. Skyldu nunnurnar þá hlaupa upp í Sönghelli, er blasir við frá hólnum og taka undir sönginn.
Menn greinir á um hvort þetta sé hinn rétti Sönghóll og segja sumir að hann sé rétt hjá Skaftá en þessi hóll heiti Gráhóll.
Hvíluklettur var áður fyrr og fram undir 1930 notaður sem lögskilarétt fyrir Landbrot. Allir bændur í sveitinni skyldu reka þangað allt óskilafé úr heimahögum sínum og sækja sitt eigið fé. Þar var og mjög almennur áningarstaður þegar ferðast var á hestum.
Tunguskjól er dæmigert fyrir það hvernig bændur brutu dyr inn í gerfigígana niður undir botn og notuðu fyrir fjárskjól í stað fjárhúsa. Voru þau einkum notuð fyrir sauði. Slík skjól eru víða í Landbrotshólum, en Tunguskjól var nýtt hvað lengst, eða eitthvað fram á 20. öld.
Myrkvastofa er hvað ferlegasti staðurinn í Landbrotshólum. Þar eru fleiri en einn "gígur" og sumir sjást ekki fyrr en komið er fram á brún. Gígarnir eru djúpir og þar þarf að sýna varúð, sérstaklega ef börn eru með í för. Frá Myrkvastofu er mjög gott útsýni.
Einbúi er snotur hóll sem stendur stakur á sléttlendi.
Gluggasker er hraunklettur með gati í gegnum: Þau munnmæli hvíldu á að menn ættu ekki að skríða í gegn um gatið, við það gætu þeir misst vitið.
Frá Gluggaskeri á að ganga veginn til baka.
Hraunshlið eru tveir samsíða hólar og slóði á milli þeirra.
Þar var oft áð á hestum
Helga Jónsdóttir og Lilja Magnúsdóttir tóku saman textann.
Heimildir: Þórarinn Magnússon, Jón Helgason,Vigfús G. Helgason


Skógarganga á Klaustri

Hvar á að byrja og enda: Á hlaðinu við Systrafoss
Hvað er þetta löng leið? Um 1 km
Gangan: Létt í byrjun en nokkuð bratt þar sem farið er upp að hömrunum
Hafa þarf í huga: Skemmtilegur staður fyrir börn. Góð aðstaða til að borða nesti í skóginum.
Gangið inn í skóginn hjá Systrafossi. Þið finnið fljótt stíg upp á brún. Farið eftir honum upp nokkra metra en beygið þar inn í skóginn til vinstri eftir lítt áberandi stíg. Haldið áfram þar til þið eruð búin að finna þrjú borð við stíginn. Þriðja borðið stendur hátt og þar er gott útsýni yfir gömlu húsin á Klaustri, Skaftá og Landbrotið. Farið síðan sömu leið til baka en beygið upp áður en þið komið að borði tvö aftur. Fylgið þeim slóða upp að klettunum og farið meðfram þeim til hægri þar til komið er að Sönghelli.
Í Sönghelli sungu nunnurnar fyrir munkana frá Þykkvabæjarklaustri þegar þeir komu upp Landbrotið. Þeir fóru yfir Skaftá á móts við Kirkjubæjarskóla. Nunnurnar hlupu í gleði sinni til móts við góða gesti og heita því eyrarnar þar sem skólinn stendur Glennarar. Þegar búið er að skoða Sönghelli og syngja eitt lag er haldið áfram meðfram hlíðinni eftir fjárgötu þar til komið er á stíginn sem liggur upp á brún. Fylgið honum niður að Systrafossi aftur.
Mælt er með að fólk fari alveg niður að fossinum og horfi upp eftir honum og skoði allan gróðurinn. Stóri steininn sem fallið hefur úr fjallsbrúninni er allur gróinn trjám og
blómplöntum. Hann er talinn hafa fallið í eldingaveðri um 1830. Það er skemmtilegt að máta hann við fjallið og sjá hvar hann hefur verið. Í Fossánni, sem er kölluð Lækurinn dagsdaglega, má finna síli og fleiri lífverur.
Upphaf skógarins má rekja til þess að heimafólk á Klaustri girti af brekkurnar ofan við bæinn og gróðursettu þar 60.000 birkiplöntur. Gróðursetning hófst árið 1945. Skógrækt ríkisins tók við umsjón skógarins 1964 og er þetta einn af þjóðskógum Íslands en er þó áfram í eigu Klausturbænda. Mest er af birki og sitkagreni í skóginum. Á seinni árum hefur ýmsum tegundum verið bætt við t.d. hlyni, álmi, reynitegundum, aski, þöll og lífviði. Eitt hæsta sitkagrenitré á Íslandi er í skóginum, það var tuttugu og þriggja metra hátt árið 2006.
Í skóginum er afar friðsælt og vatnið og birtan skapa ávallt nýja möguleika fyrir ljósmyndara
Sjá má umfjöllun um skóginn á síðu Skógræktar ríkisins:
http://www.skogur.is/thjodskogarnir/sudurland/nr/10
Texti: LM


Stjórnargljúfur

Hvar? Í Klausturheiði, fyrir ofan Kirkjubæjarklaustur
Lengd: 8-9 km
Gangan: Farið yfir brúna og síðan príluna og upp með skógarreit í hlíðinni. Nokkuð
bratt í byrjun upp á Klausturheiði, stikaða leið hjá Bjarnartættum, síðan er mjög lítil
hækkun og helmingur göngunnar er niður á við.
Bílastæði: Hjá íþróttavellinum á Kleifum eða ganga beint frá tjaldstæðinu Kirkjubæ
II eða Tjaldstæðinu á Kleifum
Hvað er áhugavert við þennan stað.
Gljúfrið er djúpt móbergsgljúfur sem
áin Stjórn hefur mótað. Margir fallegir
fossar og flúðir eru í gljúfrinu. Þekktastur
er Stjórnarfoss sem sést á leiðinni að
Geirlandi (vegur 203) en það eru fleiri fossar
faldir inni í gljúfrinu sjálfu
sem sjást á þessari gönguleið.
Uppi á heiðinni á að fara til hægri (ekki
fylgja stikunum lengra) að vik í
gljúfurbarminum. Ekki reyna að fara niður
í gljúfrið.
Gangið svo áfram upp með gljúfrinu þar til
komið er að girðinu. Þar er hlið sem á að
fara gegnum (og loka vandlega). Gangið
áfram með gljúfurbarminum þar til komið
er að fossafans þar sem Vörðugilslækur
rennur í Stjórn.
Ofan við fossana rennur áin ekki lengur í
gljúfri og þar er auðvelt að vaða yfir ána.
Þá eru göngumenn í Merkurheiðinni.
Gangið niður með gljúfrinu þeim megin.
Rústir eru í Seldal, skoðið þær og farið
síðan upp á hæsta hólinn sem heitir Selhóll
síðan er farið niður hjá Kleifum.
Á Kleifum var þingstaður Skaftfellinga. Beint
framundan er Keldunúpur. Næsti núpur heitir
Fossnúpur og Öræfajökull í fjarska.
Geirlandsá og Stjórn renna saman og heita þá
Breiðbalakvísl. Stjórnarsandur blasir við. Hann
er næstum allur gróinn grasi, lyngi og skógi en
var áður svartur foksandur sem var að kæfa
byggð og gróður.
Þegar komið er niður á veg og að brúnni á
Stjórn er gaman að ganga með ánni alveg upp
að Stjórnarfossi.
Texti: LM

Stjórnarsandur -landgræðsluskógur

Hvar á að byrja og enda: Skógræktin á Stjórnarsandi er við þjóðveg eitt, 700 metrum austan við hringtorgið
Gangan: Mjög létt ganga á sléttum slóðum. Um 4 km, báðar leiðir
Er hægt að hjóla þessa leið? Já, skemmtilegt
Hafa þarf í huga: Hafa með plöntuhandbók. Góð leið fyrir skokkara.
Leggið bílnum við hliðið inn í skógræktina sem er um 200 metra frá þjóðvegi I. Farið inn í skógræktarreitinn og gangið eftir slóðanum eins og leið liggur. Við enda slóðans er grasi gróinn hóll austur við Breiðbalakvísl. Gangið sömu leið til baka.
Þessi skógur er hluti af verkefninu Landgræðsluskógar sem er skógræktar- og uppgræðsluverkefni á vegum skógræktarfélaganna í samstarfi við Landgræðslu ríkisins, Skógrækt ríkisins og landbúnaðarráðuneytið. Á vegum verkefnisins hafa skógræktarfélögin séð um gróðursetningu á um 1 milljón trjáplantna árlega frá árinu 1990 á um
100 stöðum á landinu. Markmiðið er að sameina aðgerðir landgræðslu og skógræktar til að klæða skógi rýr og illa gróin svæði.
Skógurinn á Stjórnarsandi var gróðursettur af sjálfboðaliðum í skógræktarfélaginu Mörk, nemendum og starfsfólki Kirkjubæjarskóla og í nokkur sumur gróðursettu ferðamenn í skóginum.
Nú eru margar trjátegundir og plöntur á þessu svæði sem var svartur foksangur fyrir nokkrum áratugum. Takið vel eftir hve gróðurþekjan er þunn. Þó að nú líti út fyrir að sandurinn sé gróinn þarf að huga vel að gróðri og umgengni um Stjórnarsand. Það er áhugavert að fylgjast með hvaða plöntur vaxa í þessu landi í dag og fylgjast með hvernig gróðrinum þróast næstu árin. Mikil aska barst á þetta svæði vorið 2011 eftir Grímsvatnagosið. Sennilega verður askan áburður fyrir rýran sandinn og flýtir uppgræðslunni. Margir fuglar hafa hreiðað um sig á Stjórnarsandi og fjölgar eftir því sem gróðurinn eykst. Texti: LM


Systrastapi

Hvar á að byrja og enda: Á hlaðinu við Systrafoss
Hvað er þetta löng leið? Um 4 km, 1-1.5 klst ganga
Gangan: Gengið er á vegi og grónu landi. Vaða þarf vatnslitla á.
Er hægt að hjóla þessa leið? Já, auðvelt og skemmtilegt
Hafa þarf í huga: Það er sauðfjárbúskapur á jörðinni og því þarf að gæta þess að styggja ekki lambfé á vorin og fé sem er þarna á beit sumar og haust.
Alls ekki vera með lausa hunda á þessari gönguleið.
Gangan hefst á gamla hlaðinu við Systrafoss. Gengið er eftir veginum í vestur og beygt niður að ánni þegar komið er að fjárhúsunum á Kirkjubæjarklaustri II. Handan árinnar slútir Baðstofunef, fallegir klettar sem hafa myndast í hraunrennsli fyrir þúsundum ára. Bærinn sunnan við ána heitir Nýibær.
Þarna á bökkum Skaftár átti Erró sína fyrstu vinnustofu. Hann fékk pláss fyrir vinnustofu í bragga sem stóð þarna á bakkanum, þá aðeins 14 ára gamall. Erró segir frá því að hann hafi haft gaman af að skella sér til sunds í Skaftánni! Fáum öðrum hefur þótt Skaftá girnileg til að sundspretta.
Á vinstri hönd rennur Skaftá, vatnsmikil jökulá sem á upptök sín undir Skaftárjökli. Hún er með lengstu ám landsins, 115 km frá upptökum til sjávar. Við sjáum vatnsstraumsmæli á vinstri hönd á árbakkanum. Grannt er fylgst með Skaftá því hún grefur sig niður, hleður undir
sig eða brýtur land. Hér koma Skaftárhlaupin niður og þá getur verið tilkomumikið að fylgjast með ánni. Einnig er mikið sjónarspil hér á vetrum þegar ís stíflast í ánni, hún blæs upp eins og Skaftfellingar orða það.
Fylgið veginum að Stekkatúni, farið þá slóðann fyrir ofan túnið (ekki ganga inn á túnið). Hægt er að aka allt að Stekkatúni, þar er merkt bílastæði en það er mun skemmtilegra að ganga með Skaftánni því nálægðin við hana er hluti af upplifuninni. Vegurinn upp á fjallið heitir Ytra-Bæjarklif, í daglegu tali alltaf nefnt Klif. Ekki er leyfilegt að aka upp á fjallið nema með leyfi landeiganda. Í brekkunum undir móbergshlíðinni má finna margar tegundir blóma og grasa. Göngumenn komast ekki hjá því að sjá drang sem stendur upp við fjallið, heitir hann "Þumalfingur á trölli " og ekkert annað !
Næst er komið í Rauðárhvamma þar sem eru Rauðárfoss og Rauðá. Það er upplagt að vaða upp eftir Rauðánni og skoða í návígi mynstriði í berginu þar sem fossinn breiðir úr sér. Litur árinnar kemur til af mýrarrauða. Varið ykkur á að klappirnar geta verið hálar.
Þegar komið er að Systrastapa blasir við Eldmessutangi. Þarna stöðvaðist hraunið þegar Eldklerkurinn messaði. Að þessum stað gekk söfnuðurinn með Sr. Jón Steingrímsson í fararbroddi til að kanna aðstæður eftir eldmessuna. Rennsli hraunsins hafði þá stöðvast og tanginn er staðfesting á áhrifamætti Eldprestsins!
Bærinn Hólmur er handan árinnar. Þar eru miklar byggingar; smiðja Bjarna í Hólmi, smíðaskólinn, stórt íbúðarhús og útihús.
Það er merkilegt að skoða þrjá aðra stapa í nágrenninu; Dalbæjarstapa, Skálarstapa og Orrustuhól. Þeir eru allir svipað stórir og líkir í útliti. Ef lögð er reglustika á kort kemur í ljós að þessir fjórir stapar eru í beinni línu.
Gangið umhverfis Systrastapa uns komið er að skarði í stapann, Skaftármegin. Þar er hægt að klifra upp, ef þið eruð ekki lofthrædd en það gerir hver og einn á eigin ábyrgð. Keðja hangir niður til að aðstoða við uppgönguna, og ekki síður niðurgönguna. Athugið vel hvort ið finnið leiði nunnanna tveggja sem brenndar voru uppi á stapanum! Útsýni af Systrastapa er mjög fallegt; yfir Skaftá þar sem hún hlykkjast til sjávar, endalausa breiðu Landbrotshólanna, Skaftáreldahraunið og Öræfajökul í austri.
Gengin sama leið til baka.
Texti: EAV og LM 


06.06.2012 10:32

GÖNGUFERÐIR FERÐAMÁLAFÉLAGS SKAFTÁRHREPPS SUMARIÐ 2012


Þriðja sumarið í röð stendur Ferðamálafélag Skaftárhrepps fyrir gönguferðum með leiðsögn um valda staði í hreppnum.  Ferðirnar eru á miðvikudagskvöldum og laugardögum, og allir eru velkomnir!

 

Júní:

  6.       Kvöldferð:  Fljótsbotn í Meðallandi

            Fararstjórn:  Ingibjörg Eiríksdóttir, en Kjartan Ólafsson mun taka á móti hópnum

og segja frá staðháttum.        

Mæting við Skaftárskála kl. 18 (Botnaafleggjara kl. 18:20)

 

16.      Dagsferð:  Fossarnir í Hverfisfljóti
            Fararstjórn:  Sigurður Kristinsson og Anna Harðardóttir
            Mæting við Skaftárskála kl. 9:30 (Þverá kl. 9:50)     

 

  27.     Kvöldferð: Kúabót í Álftaveri

            Fararstjórn: Kristbjörg Hilmarsdóttir

            Mæting við Skaftárskála kl. 18 (Þykkvabæjarklaustur kl. 18:40)

 

Júlí:

   7.      Dagsferð:  Kaldbakur
Fararstjórn:  Mörtungubændur
Mæting við Skaftárskála  kl. 9:30 (Mörtungu kl. 9:45)

                                                       

  18.     Kvöldferð:  Dimmagljúfur, Arakambagljúfur og Titjufossgljúfur í Tungufljóti
Fararstjórn:  Sigfús Sigurjónsson og Lilja Guðgeirsdóttir
Mæting við Skaftárskála kl.18 (Borgarfell kl. 18:30)

 

Ágúst:

    4.     Dagsferð:  Rauðhóll-Hervararstaðir-Helgastaðaháls-Holtsdalur  
Fararstjórn:  Björgvin Harðarson og og Björk Ingimundardóttir
Mæting við Skaftárskála kl. 9:30 (Skaftárrétt kl. 9:40)

 

  15.     Kvöldferð:  Eyðibýlin Sandar og Sandasel í Meðallandi
           
Fararstjórn:  Lilja Magnúsdóttir, auk valinkunnra Meðallendinga

            Mæting við Skaftárskála kl. 18 (afleggjara að Strönd af Meðallandsvegi kl. 18:40)

 

 

Við hlökkum til að sjá ykkur og ganga saman um fjölbreytt svæðið í góðum félagsskap!  Gjald í ferðirnar er kr. 500 og sameinast verður í bíla þar sem það á við.  Allir eru velkomnir!

 

Nánari upplýsingar má fá í s. 899-8767 / netf. ferdamalafelag@gmail.com

 

Ferðanefndin; Lilja Magnúsdóttir og Ingibjörg Eiríksdóttir

  • 1

Hér erum við

 


View My Saved Places in a larger map
Flettingar í dag: 130
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 207
Gestir í gær: 67
Samtals flettingar: 658310
Samtals gestir: 131534
Tölur uppfærðar: 10.4.2021 14:13:34

Tjaldsvæði

Nafn:

Kleifar

Farsími:

8617546

Heimilisfang:

Geirlandsvegur (Mörk)

Staðsetning:

Kirkjubæjarklaustur

Heimasími:

4874675

Um:

Tjaldsvæðið Kleifar stendur við Geirlandsveg 2,5km. frá Kirkjubæjarklaustri. Við tjaldsvæðið er fallegur foss sem heitir Stjórnarfoss og á góðviðrisdögum verður vatnið í Stjórninni svo heitt að hægt er að fá sér sundsprett. Á tjaldsvæðinu eru tvö vatnssalerni og kalt rennandi vatn, bekkir og borð. Stutt er á Kirkjubæjarklaustur þar sem hægt er að komast í matvöruverslun, veitingastaði og sundlaug svo eitthvað sé nefnt.

Tenglar

This page in english
clockhere